Landsbankinn hefur lagt til hliðar 47 milljónir króna sem notaðar verða til að leiðrétta laun Steinþórs Pálssonar, bankastjóra bankans, taki Eftirlitsstofnun EFTA undir rök bankans hvað varðar laun Steinþórs. Í ársreikningi Landsbankans segir að það sé mikið áhyggjuefni að bankaráð Landsbankans ákveði ekki laun bankastjóra, heldur séu þau ákveðin af Kjararáði. Kjararáð hefur ekki talið sig geta ákveðið honum laun sem eru hærri en laun forsætisráðherra.

Bankaráð segist hafa gert ráð fyrir því að þessi launafrysting hafi átt að vera tímabundin og hafi átt að renna út árið 2010. Raunin hefur verið önnur. Í lögfræðiálitum, sem unnin hafa verið fyrir bankaráðið segir að þetta fyrirkomulag brjóti gegn stjórnarskránni og EES-samningnum. Bankaráðið sendi í fyrra erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem þessi sjónarmið eru viðruð.

Í fyrra var Steinþór með 14,2 milljónir króna í laun og önnur hlunnindi, eða tæpar 1,2 milljónir króna á mánuði. Til samanburðar má nefna að laun sjö framkvæmdastjóra bankans voru samtals 134,6 milljónir í fyrra, sem þýðir að meðallaun þeirra á mánuði voru um 1,6 milljónir króna á mánuði.

Stjórnarformaður bankans, Gunnar Helgi Hálfdanarson, fékk 8,1 milljón króna í laun frá bankanum í fyrra, sem gerir um 675.000 krónur á mánuði.