Fjárfestar eru farnir að spá því að Seðlabanki Bandaríkjanna neyðist til að ráðast í minni vaxtahækkanir vegna falls Silicon Valley Bank (SVB). Markaðurinn telur jafnframt líkur á að seðlabankinn stöðvi vaxtahækkunarferlið síðar í mánuðinum, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Verðlagning á framvirkum samningum gefur til kynna að fjárfestar telji 85% líkur á að Seðlabanki Bandaríkjanna hækki stýrivexti um 0,25 prósentur í næstu viku. Þá sé um 15% líkur á að bankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum á bilinu 4,5-4,75%.

Um er að ræða viðsnúning frá síðustu viku þegar fjárfestar töldu líklegast að bankinn myndi hækka vexti um 0,5 prósentur þann 22. mars næstkomandi. Þær væntingar stöfuðu m.a. af ummælum Jerome Powell seðlabankastjóra um að bankinn gæti þurft að hækka vexti meira og hraðar til að ná tökum á verðbólgunni.

Goldman Sachs sagði fyrr í dag að hann geri ekki lengur ráð fyrir vaxtahækkun í næstu viku „í ljósi nýlegs álags í bankakerfinu“.

Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti í gær um nýja 25 milljarða dala lánalínu til bandarískra banka til að aðstoða þá að styrkja lausafjárstöðu sína.

Greiningaraðilar segja að líta megi svo á að með ráðstöfun bankans hafi hann verið að stöðva tímabundið aðgerðir til að minnka efnahagsreikning sinn til að þrengja að taumhaldi peningastefnunnar.