Í dag seldi Orri Vigfússon Burðarási hlutabréf sín í Eignarhaldsfélaginu Urriða sem á hlutafé að nafnvirði 543 m.kr. í Íslandsbanka. Urriði er einmitt eignarhaldsfélag Guðbrands Orra sem keypti téð bréf af Burðarási fyrr í vetur. Eins og kunnugt er, eru sterk eignatengsl á milli Burðaráss og Landsbankans. Í upphafi árs voru vangaveltur uppi um hvort Landsbankinn hygðist taka yfir Íslandsbanka. Líkur á því hljóta að teljast hafa aukist á ný telur greiningardeild KB banka.

Í Hálff fimm fréttum greiningardeildarinnar er bent á að á sama tíma og Orri keypti hlut sinn keypti Helgi Magnússon einnig bréf í Íslandsbanka, 927 m.kr. að nafnvirði, en í sumar eignaðist Landsbankinn kauprétt á 747 m.kr. af þeim bréfum á genginu 8,60 kr.

"Orri sagði í samtölum við fjölmiðla á sínum tíma að engin tengsl væru á milli kaupa hans og Helga. Orri hugðist fá til liðs við sig erlenda fjárfesta í bankann og Helgi ætlaði að fá til liðs við sig öfluga fjárfesta. Niðurstaðan enn sem komið er er hins vegar sú að bréfin virðast ætla að lenda á sama stað og þau komu frá upphaflegan, en verðið hefur þó hækkað hraustlega. Viðskipti með hlutabréf Íslandsbanka hafa verið með daufara móti í Kauphöllinni að undanförnu miðað við það sem áður hefur verið," segir í Hálffimm fréttum.

Kaupréttur Landsbankans á bréf Helga í Íslandsbanka verður virkur 1. september næst komandi, en miðað við núverandi gengi bankans hlýtur að teljast nær öruggt að Landsbankinn nýti sér þann kauprétt segir greiningardeildin. Eignarhlutir Orra og Helga sem Landsbankinn og Burðarás verða því komnir með nemur 12,9% af hlutafé bankans, en ætla má að Landsbankinn eigi nokkuð af hlutum til viðbótar (það er að vísu erfitt að sjá á hluthafalista hvað bankinn hefur selt framvirkt og hvað er í hans eigin bókum).

"Telja verður því líklegt að ráðandi hluthafi í Landsbankanum og Burðarási sé kominn með ráðandi eignarhlut í Íslandsbanka og verður fróðlegt að sjá hvort sameining verði reynd í kjölfarið," segir í Hálfffimm fréttum.