Vodafone birtir uppgjör sitt í dag og gerir matsfyrirtækið IFS Greining ráð fyrir því að félagið hafi að nokkru leyti náð að rísa upp úr þeirri deyfð sem einkenndi uppgjör félagsins á fyrsta ársfjórðungi. Félagið sneri þá úr 119 milljóna króna hagnaði á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs í 19 milljóna króna tap í ár. Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, sagði tapið skýrast af samdrætti í einkaneyslu, breytingu á uppgjörsaðferðum og auknum rekstrarkostnaði.

Markaðsaðilar tóku hins vegar ekki vel í uppgjörið, þar á meðal IFS Greining og Greining Íslandsbanka, sem bæði mæltu með því að fjárfestar seldu bréf sín í félaginu. Í kjölfarið gaf IFS Greining út verðmat á Vodafone þar sem sagði að uppgjörið hafi valdið vonbrigðum og virðismatsgengið komið niður í 24,2 krónur á hlut og markgengi eftir níu mánuði upp á 29 krónur á hlut. Gengi hlutabréfa Vodafone hefur lækkað nokkuð síðan þetta var og stendur það nú í 26,5 krónum á hlut. IFS Greining segir í Morgunpósti sínum í dag að í ljósi gengislækkunarinnar frá í vor muni matið verða uppfært.