Avion Aircraft Trading hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar þess efnis að Icelandair Cargo, dótturfélag Icelandair Group hafi nú horfið frá samningi um fraktflugvélar við félagið.

Það segir að í maí 2007 hafi Avion Aircraft Trading (AAT) gengið frá viljayfirlýsingu við Icelandair Group um leigu á tveimur og kaup á tveimur nýjum Airbus A330-200 fraktvélum og áttu þær að afhendast Icelandair Cargo og Icelease árin 2010 og 2011.

„Frágangur leigu- og kaupsamninga hefur staðið yfir undanfarna mánuði og voru nú á lokastigi eftir mikla vinnu beggja aðila. Því kom það AAT verulega á óvart að Icelandair Group skyldi falla frá þessum samningum á síðustu stundu og eru það ákveðin vonbrigði því samþykki stjórnar Icelandair Group lá fyrir vegna viljayfirlýsingarinnar og hefur verið unnið að lokafrágangi samninga í góðri trú,“ segir í tilkynningu AAT.

„Það hafa orðið breytingar á hluthafahópi og í stjórn sem og forstjóraskipti hjá Icelandair Group frá því að þetta ferli hófst. Hefur það umrót væntanlega gert útslagið í þessu máli. Við munum fara nákvæmlega yfir okkar rétt. Við teljum það mjög alvarlegt þegar menn ganga svona frá borðinu á síðustu stundu með skömmum fyrirvara.

Við munum nú bjóða þessar vélar til annara aðila sem hafa sýnt þeim áhuga.Við höfum í rauninni ekki áhyggjur af því að geta ekki leigt eða selt vélarnar. Það eru hins vegar vonbrigði að hafa eytt svo miklum tíma til einskis í góðri trú og um leið haldið öðrum flugfélögum frá vélunum á sama tíma,“ segir Davíð Másson forstjóri AAT í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að ákvörðun Avion Aircraft Trading um kaup á þessum vélum byggðist á mjög hagstæðu kaupverði og spám um vöxt í fraktflutningum í heiminum.

„Sömu spár telja þörf fyrir meira en 400 fraktvélar af þessari burðargetu næstu 20 árin. Airbus A330-200 fraktvélin er eina vélin í sínum stærðarflokki sem getur borið 64 tonn með 7.400 km hámarks flugdrægi og hámarks burðargetu upp á 69 tonn með 6,000 km flugdrægi. Yfir 60 flugfélög reka í dag farþegaútgáfuna sem auðveldar viðkomandi flugfélögum að taka fraktútgáfuna í notkun.“

Avion Aircraft Trading var stofnað í apríl 2005 og hefur keypt og selt 43 flugvélar, aðallega Airbus A300-600, Boeing 747-400 og nýjar Boeing 777 fraktvélar sem síðan voru seldar aftur á markaði.