Landskjörstjórn úthlutaði í dag þingsætum eftir nýafstaðnar Alþingiskosningar í samræmi við skýrslur um kosningaúrslit frá yfirkjörstjórnum kjördæmanna sex.

Þetta þýðir að sætin miðast við niðurstöður endurtalningar í Norðvesturkjördæmi, sem hefur sætt talsverðri gagnrýni vegna ágalla á framkvæmd hennar og meints ólögmætis.

Úthlutunin er þó ekki endanleg, heldur tekur nýkjörið þing sjálft afstöðu til lögmætis kosninganna og úthlutunarinnar.

Í tilkynningu landskjörstjórnar sem gefin var út nú síðdegis segir að ákvæði kosningalaga geri „ekki ráð fyrir að landskjörstjórn hafi afskipti af störfum yfirkjörstjórna, til að mynda gefið þeim fyrirmæli um framkvæmd talningar eða mælt fyrir um endurtalningu“.

Þó verði að líta svo á að undir hlutverk landskjörstjórnar falli „að leiða sem best í ljós hvaða upplýsingar og gögn frá yfirkjörstjórnum kjördæma liggja til grundvallar við vinnu landskjörstjórnar um úthlutun þingsæta“.

Í ljósi þessa telji landskjörstjórn sér skylt að úthluta þingsætum á grundvelli skýrslna sem frá yfirkjörstjórnum hafa borist. „Fellur það utan valdsviðs landskjörstjórnar að taka afstöðu til hugsanlegra ágalla á framkvæmd kosninga í einstökum kjördæmum eða hvort, og þá hvaða, áhrif slíkt hafi á gildi kosninga.“

Landskjörstjórn leggur að lokum áherslu á að það falli svo í hlut Alþingis að úrskurða um hvort gallar sem ætla megi að hafi haft áhrif á úrslitin hafi verið á framkvæmd kosninganna.