Eig­endur 711 fast­eigna í Grinda­vík hafa sótt um að Þór­katla kaupi í­búðir þeirra eða í­búðar­hús í bæjar­fé­laginu. Þetta kemur fram í til­kynningu frá fé­laginu.

Stjórn Þór­kötlu hóf af­greiðslu um­sókna í lok síðustu viku og hefur nú þegar sam­þykkt kaup á 126 eignum fyrir alls um 9,2 milljarða króna.

Frá­gangur og af­greiðsla ein­stakra við­skipta mun taka mis­langan tíma en stefnt er að því að sam­þykkja um 150 um­sóknir til við­bótar í næstu viku.

Ríkið stofnaði Fast­eigna­fé­lagið Þór­kötlu til að kaupa í­búðar­hús­næði í Grinda­vík. Um­fang að­gerðanna sam­kvæmt laga­frum­varpi er allt að 61 milljarður. Gert er ráð fyrir að eignirnar verði keyptar á verði sem nemur 95% af bruna­bóta­mati að frá­dregnum veð­skuldum.

„Vonast er til að kaupin muni ganga hraðar fyrir sig eftir því sem reynsla kemst á ferlið. Þegar hefur verið gengið frá kaup­samningum við 11 um­sækj­endur en 115 um­sækj­endur fá í dag til­kynningu um að um­sókn þeirra hafi verið sam­þykkt í stjórn Þór­kötlu,“ segir í til­kynningu Þór­kötlu.

Frá­gangur er að hefjast vegna kaup­samninga við þennan hóp og ætti greiðsla sem nemur 95% af kaup­verði að berast selj­endum innan fimm virkra daga frá undir­ritun og þing­lýsingu kaup­samnings.

Nokkrir um­sækj­endur hafa þegar fengið kaup­samnings­greiðsluna milli­færða á reikninga sína.

„Við vitum að þorri Grind­víkinga er í þröngri stöðu í sínum hús­næðis­málum. Margir eru búnir að reyna að festa sér eignir annars staðar og bíða eftir að geta selt. Það er skiljan­legt að þolin­mæði þeirra sé lítil og að þau hafi vonast eftir hraðari af­greiðslu sinna um­sókna. Fast­eigna­við­skipti eru í eðli sínu flókið ferli og það er margt sem við þurfum að huga að. Verk­efnið í Grinda­vík er enn flóknara en hefð­bundin fast­eigna­við­skipti þar sem Þór­katla annast yfir­töku og upp­gjör lána fyrir hönd selj­enda og þarf að út­færa það vinnu­lag í sam­ráði við 18 ó­líka lán­veit­endur. Það er afar mikil­vægt að það ríki jafn­ræði meðal Grind­víkinga gagn­vart þessari björgunar­að­gerð stjórn­valda og mörg hundruð ein­stök fast­eigna­við­skipti, þar sem málin eru oft mjög ólík, fela í sér á­skoranir að þessu leyti. Við erum að vinna í þessu mjög þétt en rétt eins og í fast­eigna­við­skiptum al­mennt þá getur sitt­hvað komið upp sem tefur,“ segir Örn Viðar Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Þór­kötlu.

„Við viljum forðast í lengstu lög að eitt­hvað fari úr­skeiðis við kaup þessara fast­eigna sem leiða kann til eftir­mála síðar. Al­geng spurning sem við höfum fengið er hvort fólk muni fá af­greiðslu sinna mála í sömu röð og það sótti um. Svarið við því er að við erum al­mennt að taka um­sóknir til skoðunar í þeirri röð sem þær bárust, en þar sem málin eru mis­flókin, þá er ekki hægt að á­byrgjast að af­greiðsla þeirra verði í sömu röð. Við þurfum að gæta mjög vel að því að lögunum sé fylgt og að þessum tugum milljarða sem Þór­katla hefur til ráð­stöfunar verði varið á þann hátt sem Al­þingi á­kvað. Við virðum rétt Grind­víkinga til að láta í sér heyra og við heyrum svo sannar­lega í þeim. Við tökum skila­boðunum sem frá þeim berast sem hvatningu til að vinna verkið hratt, en við vitum líka að bæði Grind­víkingar og aðrir lands­menn vilja að við vinnum það vel,“ segir Örn.