„Verðtryggingin er tæki til að draga úr lántökukostnaði fyrir alla. Það þarf að einblína á kostnaðinn í kerfinu, ekki vaxtastigið, vegna þess að einstaklingarnir skulda fyrri hluta ævinnar og njóta ávaxta af sparnaði seinni hluta hennar,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.

Hann fullyrðir að verðtryggingin hafi bjargað lífeyrissjóðunum frá algjöru hruni.

Þórólfur hélt erindi um kosti og galla verðtryggingarinnar á fundi BSRB í gær. Í erindinu kom fram að verðtryggingin hafi átt drjúgan þátt í að breyta afstöðu aðila vinnumarkaðarins og almennings til verðlagsmála. Fyrir tíma verðtryggingar hafi verðbólga verið mikil. Það hafi dregið úr virkni fjármálakerfisins, sparnaður verið lítill og sparifjáreigendur fest fé sitt í húsnæði, bílum og listaverkum.

Með svokölluðum Ólafslögum var verðtryggingin heimil árið 1980 og fjármálakerfinu, þar á meðal lífeyrissjóðunum, komið til hjálpar. Bæði hafi sparnaður orðið hagkvæmur á ný, framboð á fjármagni aukist á fjármagnsmarkaði og verið ýtt undir sérhæfðari fjárfestingar en listaverkakaup og frímerkjasöfnun. Því til viðbótar hafi verðtryggingin gert lántaka auðveldara um vik enda hafi hann ekki þurft að endursemja um höfuðstól lána í sífellu.

Þá kom fram í erindi Þórólfs að krónan er of lítil mynt til að tryggja stöðugleika. Við sitjum hins vegar uppi með verðtryggingu jafn lengi og krónuna.