Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir rannsókn Seðlabankans á hendur fyrirtækinu að einhverju leyti pólitískan og býst allt eins við því að málið verði kært til embættis sérstaks saksóknara fyrir þingkosningar.

Þorsteinn fór mikinn á fundi Samtaka atvinnurekenda á Akureyri í síðustu viku og vandaði Seðlabankanum ekki kveðjurnar. Akureyri Vikublað fjallar um ræðu Þorsteins í blaðinu sem kom út í dag.

Seðlabankinn gerði húsleit á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík í fyrravor vegna grun um að fyrirtækið skildi hagnað af karfaviðskiptum eftir í dótturfélögunum erlendis í stað þess að koma með gjaldeyrinn heim eins og lög um gjaldeyrismál kveða á um. Þetta var megin röksemdin fyrir húsleitinni þótt fleiri atriði hefðu líka verið tínd til.

Leggja mikla áherslu á viðurlög við brotum

Þorsteinn sagði á fundinum í síðustu viku að Seðlabankinn sendir Samherja orðið svo reglulega bréf um málið. Það sé nánast orðið að hefð að þau séu þrjár blaðsíður. Á fyrstu blaðsíðunni geri Seðlabankinn grein fyrir því að honum sé í raun mögulegt að gera allt sem hann vill gera. Á annarri blaðsíðunni sé efni málsins og á þeirri þriðju greini frá þeim viðurlögum sem Seðlabankinn hefur heimildir til að beita þau fyrirtæki sem ekki svara bréfum innan sjö daga. Meðal viðurlaga eru heimildir bankans til að leggja dagsektir á fyrirtæki sem nema allt að einni milljón króna.

Þetta sagði Þorsteinn dæmi um óttastjórnun og ítrekuð skilaboð um að þeim sem gagnrýndu yfirvöld skyldu fá bágt fyrir.

Þorsteinn sagði m.a. að ef út í það væri farið þá mætti finna „einhverjar villur“ í bókhaldi allra fyrirtækja. Hann sagði þó skilning Seðlabankans á meintum brotum Samherja í anda Simpson hagfræði, sem hann gaf lítið fyrir og sagði Seðlabankann ekki hafa hikað við að ljúga fyrir dómstólum þegar þess var krafist að málinu yrði vísað frá.