„Það er feiknamikil aukning í verkefnum, mörg ný verkefni sem eru að koma inn. Aðallega eru það íbúðaverkefni, þau hafa ekki verið nein frá hruni,“ segir Þorvaldur Gissurarson, stofnandi og forstjóri verktakafyrirtækisins Þ.G. Verktakar. Hann segir gjörbreytingu hafa orðið á verkefnastöðu fyrirtækisins frá því sem verið hef­ur.

Þ.G. Verktakar vinna að ýmsum stórum verkefnum. Þar ber fyrst að nefna 140 íbúða fjölbýlishús á Hampiðjureitnum fyrir ofan Hlemm í Reykjavík, fjölbýlishús við Garðatorg í Garðabæ og nýjan verkmenntaskóla við Marknagil í Þórshöfn í Færeyjum. Bygging skólans ytra er ein stærsta framkvæmdin í sögu Færeyja. Þá er ónefnt hátæknisetur Alvogen, en Þ.G. Verktakar munu stýra byggingu þess.

Gott að halda í starfsfólkið

Þorvaldur er hreinskilinn spurður um forsendur þess að Þ.G. Verk­takar geti farið út í íbúðafram­kvæmdir á nýjan leik og það með jafn stórhuga hætti og raunin er á Hampiðjureitnum og í Garða­ bænum, byggingar sem eru á eigin reikning fyrirtækisins.

„Íbúðamarkaðurinn er kominn á skrið á nýjan leik, verðið hefur hækkað, meira er lánað auk þess sem eftirspurnin hefur safnast upp eftir íbúðahúsnæði og kaup­ áhuginn er almennur. Það eru þessi atriði sem gerðu það að verkum að menn sáu ástæðu til þess að fara af stað aftur,“ segir hann og bætir við:

„Í fyrsta lagi urðum við vör við auk­inn kaupáhuga á íbúðum. Í öðru lagi – og sem skiptir mestu máli – er að fjármögnunaraðilar fengu áhuga á byggingamarkaði á nýjan leik. Það hafði verið lokað fyrir fjármögnun svona verkefna í langan tíma. Þriðja atriðið snýr svo að því að væntingar voru um að vænt söluverð væri orðið ásættanlegt. Á árunum á  undan var söluverð íbúða einfaldlega lægra en byggingarkostnaður eða framleiðslukostnaður. Á með­an það ástand varaði borgaði það sig ekki að byggja. En þarna í byrj­un árs í fyrra fannst okkur orðið ljóst að vænt söluverð væri orðið hagstætt og því ásættanlegt að fara af stað. Það hefur gengið eftir. Sá grundvöllur var ekki til eftir hrunið og fram undir árið 2013,“ segir Þor­valdur en bætir við að þegar efnahagslífið hafi skroppið saman og hægst á framkvæmdum hafi á sama tíma tekist að halda lykilstjórnendum og góðu starfsfólki  í gegnum samdráttartíma. Það komi sér afar vel nú þegar umsvif séu að aukast að nýju.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .