Prentmiðlar hafa víðast hvar gefið eftir í breyttu fjölmiðlaumhverfi netaldar, hvergi jafneindregið og í Bandaríkjunum, en þróunin þar er oft undanfari þess sem gerist annars staðar. Þar hefur um fjórðungur allra fréttablaða lagt upp laupana á undanförnum 15 árum.

Það er ekki von, þar sem hlutfall auglýsingaútgjalda til prentmiðla er við að þurrkast út, en netmiðlar hafa náð ótrúlega skjótum árangri.

Það segir þó ekki alla sögu um afkomu miðlanna, flestir helstu netmiðla eru reknir á gömlum merg hefðbundnari miðla. Þar hafa stórblöðin mörg náð að verjast, en ótal staðbundnir og smærri prentmiðlar mun síður.