Nauðsynlegt er að dómstólar skeri endanlega úr um inntak kyrrsetningarheimildar loftferðalaga. Verði niðurstaða Landsréttar sú sama og héraðsdóms mun það hafa töluverðar breytingar á innheimtuferli Isavia í för með sér sem og möguleg letjandi áhrif á vilja erlendra flugfélaga til að koma hingað til lands. Þetta staðhæfir starfandi forstjóri Isavia.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu fyrir viku að komið hefði til skoðunar hjá Isavia að kyrrsetja vél Wow þegar vanskil félagsins á greiðslu notendagjalda gerðu vart við sig. Hins vegar var afráðið að grípa ekki til þess ráðs fyrr en í lokin svo Isavia yrði ekki valdur að því að Wow magalenti. Var það gert þrátt fyrir þá staðreynd að skuld Wow hefði numið rúmum milljarði króna síðasta sumar. Kyrrsetningarheimildinni var aftur á móti beitt í upphafi þessa árs gagnvart Flugfélaginu Erni þó að skuld þess hefði numið talsvert lægri fjárhæð eða um 98 milljónum.

Fjölmargar spurningar hafa vaknað í tengslum við þessa framkvæmd Isavia. Því hefur meðal annars verið velt upp hvort slaki sá er Wow hlaut hafi brotið gegn reglu EES-samningsins um ólögmæta ríkisaðstoð, hvort stjórnendur Isavia hafi farið út fyrir umboð sitt og hvort framgangan hafi falið í sér röskun á samkeppni flugfélaga. Einnig hvort jafnræðis hafi verið gætt, til að mynda við samanburð á upphæðum skulda Wow og Ernis.

„Þegar ákvarðanir vegna vanskila viðskiptavina eru teknar þá eru það fyrst og fremst viðskiptalegir hagsmunir Isavia sem við horfum til. Vanskil Ernis höfðu staðið yfir í talsvert langan tíma og þegar við gripum til stöðvunarheimildarinnar í því tilfelli mátum við það svo að við gætum beitt henni án þess að það raskaði um of rekstri félagsins,“ segir Sveinbjörn Indriðason, starfandi forstjóri Isavia.

Sveinbjörn segir að það mat hafi staðist og að félaginu hafi tekist að greiða úr sínum vanda. Ákvörðun um stöðvunina hafi verið tekin á sama lagagrundvelli og í tilfelli Wow. Að mati Sveinbjörns hafa forsendur úrskurðar héraðsdóms það í för með sér að ekki sé lengur kostur á að kyrrsetja staka vél heldur verði að stöðva för allan flota viðkomandi félags.

„Hefði það verið tilfellið í máli Ernis þá hefði það getað riðið félaginu að fullu. Slík túlkun er klárlega ekki í anda lagaákvæðisins. Það á ekki að skipta flugvöllinn máli hvaða vél hann stöðvar upp í vanskilin,“ segir Sveinbjörn. Slíkt túlkun opni einnig á þann möguleika að flugrekstrarleyfishafi geti komist hjá greiðslu gjalda með því að senda sífellt nýja og nýja vél hingað til lands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .