Á morgun, 1. júlí, tekur gildi niðurstaða úr viðræðum innflytjenda frumlyfja við lyfjaverðsnefnd um lækkun á verði innfluttra frumlyfja frá framleiðendum. Áætlað er að sparnaður skattgreiðenda vegna nýrra verðviðmiða nemi um 300 milljónum króna á ári miðað við heildsöluverð og um 500 milljónum á ársgrundvelli miðað við verð í smásölu.

Viðræður innflytjenda og framleiðenda frumlyfja við lyfjaverðsnefnd um leiðir til lækkunar lyfjaverðs hafa skilað árangri sem markar tímamót í verðlagningu lyfja á Íslandi. Mikilvægt er jafnframt að tekist hefur að tryggja framboð á nýjustu og bestu lyfjum án þess að aðgengi að þeim sé í hættu. Þessi niðurstaða mun því leiða til lækkunar á lyfjakostnaði hins opinbera án þess að það komi niður á heilsu og lífsgæðum sjúklinga segir í tilkynningu frá FIS.

Frá og með morgundeginum mun lyfjaverðsnefnd (og síðan væntanleg lyfjagreiðslunefnd) miða úrskurði sína um verð á lyfjum við verðlag í Svíþjóð, Noregi og Danmörku að viðbættu 5 til 15% veltutengdu álagi vegna þeirra öryggiskrafna sem gerðar eru hérlendis, m.a. um birgðahald og dreifingu. Verðákvarðanir verða endurskoðaðar tvisvar á ári og tekið tillit til verðþóunar í viðmiðunarlöndunum þremur.

Í raun hefur verðviðmiðunin við norrænu ríkin þrjú í för með sér Evróputengingu á verði innfluttra frumlyfja. Það skýrist af því að lyfjaverð í Danmörku er miðað við meðaltal 12 EES-landa og eru viðmiðunarlöndin valin út frá þjóðartekjum. Noregur er með 9 Evrópulönd til viðmiðunar og þar er stuðst við lægsta verð þriggja viðmiðunarlandanna. Í Svíþjóð er miðað við meðaltal allra EES-landa nema þeirra sem eru með lægstar þjóðartekjur. Verð í Svíþjóð er þó undir EES-meðaltali. Með reglulegri endurskoðun verðákvarðana er tryggt að verð innfluttra frumlyfja á Íslandi verður á hverjum tíma svipað og Evrópuverð.

Lækkun á verði innfluttra frumlyfja kemur fyrst og fremst fram sem lækkun á lyfjakostnaði Tryggingastofnunar ríkisins og þar með á útgjöldum skattgreiðenda.