Tíu mál, sem varða ólögmæti fyrirkomulags útboðs á tollkvóta, bíða úrlausnar dómstóla. Samanlagðar kröfufjárhæðir málanna, sem beint er að íslenska ríkinu, eru á annan milljarð króna. Þetta kemur fram í áfrýjunarleyfi Hæstaréttar í máli Ásbjörns Ólafssonar gegn íslenska ríkinu.

Nýverið féllst rétturinn á beiðni íslenska ríkisins um áfrýjunarleyfi í máli Ásbjörns Ólafssonar ehf. gegn ríkinu. Málið snýst um fyrirkomulag á útboði tollkvóta landbúnaðarafurða en Landsréttur dæmdi það ólögmætt í mars. Var það í þriðja sinn á sex árum sem fyrirkomulagið er dæmt í andstöðu við grundvallarlög.

Í leyfisbeiðni ríkisins kom fram að það teldi niðurstöðuna bersýnilega ranga. Þótt fjárhæðir tollkvóta væru ekki beinlínis ákveðnar í lögum hefði verið mælt fyrir um aðferð við álagningu þeirra og skattlagningin því ekki valkvæð. Þá hafi niðurstaða Landsréttar byggt á málsástæðu sem ekki hafi verið höfð uppi við meðferð málsins.

Rétturinn féllst á að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um hvort viðhlítandi heimild hafi verið fyrir hendi til skattheimtu og samþykkti því að málinu yrði áfrýjað til réttarins.