Hópur fjárfesta, sem samanstendur af Kohlberg Kravis Roberts & Co., Bain Capital LLC og Vornado Realty Trust, fékk í dag vilyrði fyrir því að kaupa ameríska leikfangarisann Toys R Us fyrir um 5,75 milljarða dollara. Félagið hefur verið skráð á markaði síðan 1978 en á rætur að rekja allt aftur til ársins 1948, þá í töluvert annarri mynd en í dag. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 5,3% eftir að tilkynnt var um kaupin og var komið í 26,07 dollara á hlut, en kaupverðið er um 26,75 dollarar fyrir hlutinn. Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar segir að Toys R Us var fram til ársins 1998 stærsta fyrirtækið í sölu leikfanga í Bandaríkjunum en þá fór verslunarkeðjan Wal-Mart upp fyrir það í topp sætið. "Síðan þá hefur heldur hallað undan fæti í leikfangadeild fyrirtækisins og það tapað frekari markaðshlutdeild, þrátt fyrir að vera enn næst stærst á markaðinum. Félagið rekur um 680 leikfangaverslanir í Bandaríkjunum og rúmlega 600 leikfangaverslanir í öðrum löndum auk þess sem félagið rekur 220 verslanir með ýmsan annan varning fyrir börn," segir í Hálffimm fréttum.