Mikill umsnúningur varð á rekstri og afkomu útgerðarfélagsins Granda á fyrsta ársfjórðungi að því er kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins. Rekstrartekjur ársfjórðungsins voru 4.670 milljónir króna en voru 3.675 milljónir króna árið áður. EBITDA, án söluhagnaðar af Engey, var 1.478 milljónir króna eða 31,6% af veltu, en var 760 milljónir króna (20,7%) á sama tíma árið áður. Við bætast 662 milljónir króna vegna hagnaðar af sölu Engeyjar.


Nettó gengismunur og verðbætur lána voru jákvæð um 1.313 milljónir króna en neikvæð um 1.840 milljónir króna árið áður. Hagnaður tímabilsins var 2.406 milljónir króna en árið áður varð 1.337 milljóna króna tap. Því má segja að það hafi orðið tæplega fjögurra milljarða króna afkomusveifla.

Aukning tekna réðist að hluta til af veikara gengi krónunnar, en meðalgengisvísitala fyrsta ársfjórðungs hækkaði á milli ára úr 110 í 122 eða um 11%. Afli á loðnuvertíð óx verulega á milli ára vegna meiri úthlutunar kvóta, auk þess sem verðmæti á veitt kíló voru hærri vegna mikillar hrognaframleiðslu.