Fjárfestirinn og sjónvarpsstjarnan Donald Trump segist vera búinn að ákveða framboð sitt til forseta Bandaríkjanna. Hann geti þó ekki tikynnt um framboðið formlega fyrr en síðasta sjónvarpsþættinum af raunveruleikaþætti hans The Apprentice er lokið.

Í viðtali við Bloomberg segir Trump, sem er 64 ára, að hann sé búinn að taka ákvörðunina. Hans helstu baráttumál verða að fjölga störfum í Bandaríkjunum, örva efnahaginn og að koma í veg fyrir að Kína og ríki OPEC, samtök olíuríkja, nýti sér Bandaríkin í eigin þágu.

Trump telur að undir stjórn hans muni olíuríkin hegða sér á allt annan hátt en þau gera í dag. Þeim mun ekki endilega líka við sig, en olíuverð lækkar og efnahagurinn nær sér á strik að nýju, segir Trump. „Enginn mun svindla á okkur,“ segir Trump.

Samkvæmt nýlegum könnunum er Trump meðal vinsælli mögulegra frambjóðenda Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2012. Gallup könnun sem gerð var 15.-20. apríl sýndi að Trump nýtur 16% fylgis meðal 15 líklegra framjóðenda flokksins.