Sindri Sindrason, stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands og Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Sundagarða voru kjörnir inn í stjórn Saga Capital. Kjörið fór fram á aðalfundi bankans, sem haldinn var í gær í húsakynnum Leikfélags Akureyrar. Þeir Halldór Jóhannsson, sitjandi stjórnarformaður Saga Capital, Jóhann Antonsson og Róbert Melax sitja að sama skapi áfram í stjórn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum,

,,Saga Capital verður áfram fjárfestingarbanki en viðskiptabankaleyfið gerir bankanum kleift að vera sveigjanlegri og koma til móts við kröfur þeirra viðskiptavina sem vilja opna innlánsreikninga hjá bankanum,“ sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónson, forstjóri Saga Capital, en bankinn hefur sótt um viðskiptabankaleyfi.

,,Bankinn hefur vaxið hratt frá því hann tók formlega til starfa um mitt síðasta ár og situr nú í fjórða sæti, á eftir stóru viðskiptabönkunum þremur, í markaðshlutdeild í Kauphöll Íslands, það sem af er þessu ári. Viðskiptabankaleyfi er rökrétt framhald af þessari þróun,“ er haft eftir Þorvaldi Lúðvík Sigurjónssyni, forstjóra Saga Capital í fréttatilkynningu.

Fjármálaeftirlitið er undirmannað

Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Saga Capital, ræddi um stöðu Fjármálaeftirlitsins á aðalfundinum og sagði að engum dyldist að mikill tími færi í að fá úrskurði um einföld mál enda augljóst að stofnunin væri undirmönnuð.

Halldór sagði að í því ljósi vekti það undrun hversu illa gengi að færa FME aukið rekstrarfé. Fjármálaeftirlitið væri fjármagnað af þeim sem stofnunin hefði eftirlit með og atvinnugreinin ætti að leggja metnað sinn í að tryggja FME aukið rekstrarfé, þannig að hægt væri að stórauka afkastagetu stofnunarinnar.