Tvær tilkynning bárust Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í nóvembermánuði þar sem sagt var upp 43 manns. Samkvæmt fréttatilkynningu frá stofnuninni sem birt var í byrjun þessa mánaðar var um að ræða fyrirtæki í fiskivinnslu og voru ástæður uppsagna hráefnaskortur. Uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu desember og fram til janúar 2011.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í dag. Segir að hópuppsagnir í nóvember séu mun færri en á sama tíma í fyrra. Þá var alls 188 manns sagt upp störfum í hópuppösgnum og er þróunin í takti við það sem verið hefur á árinu. „Þannig hefur verið heldur minna um hópuppsagnir á fyrstu 11 mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Þannig hafa Vinnumálastofnun borist alls 29 tilkynningar á þessu ári þar sem sagt hefur verið upp 742 starfsmönnum en á sama tímabili í fyrra höfðu borist alls 49 tilkynningar sem náðu til 1.622 starfsmanna,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Reikna með aukni atvinnuleysi

„Næstkomandi mánudag mun Vinnumálastofnun birta tölur um skráð atvinnuleysi í nóvember. Í október síðastliðnum mældist atvinnuleysi 7,5% og jókst um 0,4 prósentustig frá fyrri mánuði. Var atvinnuleysi þar með í efri mörkum þess sem reiknað hafði verið með, en mánuði áður hafði Vinnumálastofnun gert ráð fyrir að hlutfallið yrði á bilinu 7,2%-7,6%. Reikna má með að atvinnuleysi komi til með að aukast enn frekar á næstunni en á milli október og nóvember í fyrra fór atvinnuleysi úr 7,6% í 8,0%. Fyrir um mánuði síðan hafði Vinnumálastofnun áætlað að atvinnuleysi yrði á bilinu 7,6%-8,0% í nóvember.“