Samfélagsmiðillinn Twitter er metinn á 12,8 milljarða dala, jafnvirði 1.547 milljarða íslenskra króna, á gengi dagsins. Bloomberg-fréttaveitan , sem hefur verið að fjalla um væntanlega skráningu Twitter á hlutabréfamarkað, segir í dag að þótt hægt hafi á vexti Twitter og fáar vísbendingar séu um að fyrirtækið muni skila miklum hagnaði á næstu árum þá megi reikna með að virði félagsins muni halda áfram að aukast á næstu árum. Gert er ráð fyrir að Twitter verði orðið á bilinu 15 til 20 milljarðar dala þegar viðskipti hefjast með bréfin á markaði.

Verðmiðinn sem Bloomberg styðst við er verðmatið sem liggur til grundvallar hlutafjárútboði félagsins.

Bloomberg setur skráningu Twitter í samhengi við sambærileg fyrirtæki, s.s. Facebook og LindedIn. Ef verðmætið er 12,8 milljarðar dala þá jafngildir það 28,6-földum tekjum fyrirtækisins á síðastliðnum 12 mánuðum. Þær námu 448 milljónum dala. Til samanburðar nemur markaðsverðmæti Facebook nú tæpum 20-földum tekjum og verðmæti LindedIn um 21-földum tekjum.