Á síðasta ársfundi Landsvirkjunar aflétti Hörður Arnarson þeirri leynd sem ríkt hefur um raforkuverð til stóriðju. Í kjölfarið hafa álverin getað greint frá því að um 40% af útflutningstekjum þeirra eru eftir í landi.

Lengi hefur ríkt mikil leynd yfir raforkuverði til stóriðju. Þessi mikla leynd hefur vakið upp tortryggni meðal margra sem telja að leyndin stafi af því að stóriðjan borgi miklu lægra verð en almenningur fyrir raforku. Margir hafa velt því fyrir sér hvort raforka til stóriðju standi í raun og veru undir kostnaði og hvort raforkuverð til heimilanna hafi farið hækkandi vegna aukinnar stóriðju í landinu. Það væri vissulega ekki vinsælt meðal almennings og þess vegna betra að halda verði til stóriðju leyndu.

Raforkuverð til stóriðju

Þetta er hins vegar ekki raunin. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, fór á síðasta ársfundi félagsins yfir þróun íslensks raforkumarkaðar og aflétti leyndinni um raforkuverð til stóriðju. Í kjölfarið gátu álverin birt tölur um innlendan kostnað og þar af leiðandi hversu stór hluti af útflutningstekjum þeirra verður eftir í landi. Það hafa bæði Alcoa Fjarðaál og Rio Tinto Alcan, sem rekur álverið í Straumsvík, gert og staðreyndin er sú að um 40% af útflutningstekjum verða eftir í landinu.

40% af útflutningstekjumí landi

Útflutningur áls er stór hluti af heildarvöruútflutningi frá landinu. Árið 2009 var útflutningur áls 34,6% af verðmæti alls vöruútflutnings frá landinu, eða fyrir rúmlega 173 milljarða króna. Ef miðað er við að um 40% af útflutningstekjum álveranna verði eftir í landi þá eru það tæpir 70 milljarðar króna sem verða eftir á Íslandi. Sá hluti útflutningstekna sem verður eftir í landi fer að mestu leyti í vöru og þjónustu sem keypt er hérlendis. Auk þess er meðtalinn launakostnaður sem og opinber gjöld, þar með talin raforkugjöld.

Hlutfall útflutningstekna sem verða eftir í landi er meira en margir höfðu getið sér til um. Ein af ástæðum er að stóriðjan greiðir hærra raforkuverð en talið var. Í raun og veru greiðir stóriðjan rúmlega 70% af því verði sem heimilin greiða en það kemur í ljós þegar heildsöluverð á raforku er borið saman.