Bandarískir framhalds- og háskólanemar fengu 117 milljarða dollara í námslán á síðastliðnu ári. Þá eru skuldir einstaklinga af námslánum í Bandaríkjunum rúmlega þúsund milljarðar og eru nú, í fyrsta sinn, meiri en en skammtímaskuldir (kredit-korta skuldir) Bandaríkjamanna.

Frá þessu segir í pistli fréttaveitu Yahoo. Þar kemur jafnframt fram að í kjölfar niðurskurðar til háskóla í Bandaríkjunum, jafnt einkarekinna sem opinberra, hafi skólagjöld smám saman farið hækkandi á sama tíma og í mörgum skólum hafi dregið úr fjárhagsaðstoð til nemenda. Sumir bandarískir skólar hafa jafnvel lokað fyrir inntöku nýnema og má nefna ríkisháskólann í Californiu (California State University) sem dæmi. Skólinn starfar á 23 stöðum en 15 þeirra munu ekki taka á móti nýnemum haustið 2013.

Samkvæmt greiningardeild Moody’s hefur hlutfallsleg hækkun námslána á milli ára ítrekað náð tveggja stafa tölu. Þá hefur kostnaður við námið vaxið mun hraðar en verðbólga.

Málið hefur fengið töluverða umfjöllun í Bandaríkjunum og sagt fjarri lagi að háskólamenntunin skili öruggara aðgengi að starfi eða hærri launum. Því eigi sífellt fleiri erfitt með að greiða af námslánum. Obama Bandaríkjaforseti hefur sagt mikilvægt að menntakerfið verði tekið í gegn og tryggt að menntun verði ekki aðeins á færi hinna ríku.