Ákveðið hefur verið að kanna hvort ástæða þykir til að taka upp svokallaða neyslustaðla hér á landi líkt og á hinum Norðurlöndunum (standard budgeter) og hefur viðskiptaráðherra sett á laggirnar starfshóp í þessum tilgangi. Gert er ráð fyrir að hið nýstofnaða Rannsóknasetur verslunarinnar annist framkvæmd könnunarinnar fyrir hönd starfshópsins. Neyslustaðlar eiga að sýna framfærslukostnað heimila og eru notaðir til neysluviðmiðunar fyrir neytendur, sveitarfélög, lánastofnanir, félagsmálayfirvöld o.fl.

Dæmi um notkunarsvið neyslustaðla er þegar lánastofnanir á borð við Lánasjóð íslenskra námsmanna ákvarðar framfærslukostnað lánþega eins og við bótaákvarðanir félagsmálaþjónustu sveitarfélaga. Neyslustaðlar eru frábrugðnir niðurstöðum úr neyslukönnun Hagstofunnar, sem er notuð til að ákvarða vísitölu neysluverðs. Kannanir Hagstofunnar sýna raunverulega neyslu tiltekins fjölda fjölskyldna í úrtaki sem á að vera þversnið íslenskra fjölskyldna. Neyslustaðlar byggja hins vegar á matar- og neyslukörfu sem er ákvörðuð út frá því hvað er talið eðlilegt og nauðsynlegt fyrir fjölskyldur út frá tilteknum forsendum og fjölskyldustærð. Þannig mæla neyslustaðlar væntanlega ekki það sem hægt er að telja til óþarfa munaðar þó svo að margar fjölskyldur eyði í slíkt.

Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindu málsins og hvaða viðmiðanir verða teknar. Þó má gera ráð fyrir að fylgt verði að einhverju leyti þeim starfsaðferðum sem viðhafðar eru í hinum Norðurlöndunum. Hér eru tengingar þar sem hægt er að fá nánari upplýsingar um neyslustaðla í Noregi og Svíþjóð.