Nemendur í MPM-námi HR, meistaranámi í verkefnastjórnun, kynntu í á þriðjudaginn verkefni sem þau hafa verið að vinna á vormisseri. Meðal verkefnanna eru „Þetta er geðveikt!“ þar sem nemendur höfðu frumkvæði að gerð fræðslumyndbands um geðsjúkdóma fyrir framhaldsskólanemendur. Efnið var undirbúið og framleitt í samstarfi við Landlækni, geðsvið Landspítalans, Geðhjálp, BUGL og Tjarnargötuna, að því er segir í tilkynningu frá HR.

Annar hópur stóð að stofnun samtakanna Matarheill. Meðal annarra verkefna voru stefnumótun og aðgerðaráætlun fyrir ísaksskóla, tæplega 90 ára gamlan grunnskóla í Reykjavík og viðskiptaáætlun um uppbyggingu söluskála á vinsælum ferðamannastað á landsbyggðinni.

Helgi Þór Ingason, annar forstöðumanna MPM-námsins sagðist í erindi sínu á fundinum vera stoltur af nemendum sínum. „Verkefni á borð við þau sem kynnt voru hér sýna hvers megnug við getum verið með því að beita aðferðum verkefnastjórnunar. Ekki síður er það afskaplega gaman og gefandi fyrir okkur sem stöndum að MPM náminu að sjá skýr dæmi um það hvernig við höfum jákvæð áhrif úti í samfélaginu.“