Vinna Jóns Óttars Ólafssonar og Guðmundar Hauks Guðmundssonar fyrir þrotabú Milestone á virkum dögum dagana 27. september til 28 nóvember á síðasta ári nam 577 klukkustundum. Þar af tók 511 klukkustundir að gera skýrslu um gjaldfærni félagsins, samkvæmt tímatöflu sem Morgunblaðið birtir í dag. Á sama tímabili voru þeir í fullu starfi hjá embætti sérstaks saksóknara.

Jón Óttar segir í samtali við blaðið að  vinnan hafi öll farið fram utan hefðbundins vinnutíma hjá embættinu. Vinnudagurinn hefur því verið langur, eða um 14,25 klukkutímar þessar tíu vikur. Auk þess unnu þeir 393 klukkutíma um helgar, eða 9,8 klukkustundir hvern helgardag.

Sérstakur saksókari hefur kært mennina fyrir brot á þagnarskyldu en þeir störfuðu samtímis hjá embættinu og fyrir þrotabú Milestone. Málið er í rannsókn.