Gunnar Bragi Sveinnson, utanríkisráðherra, segir það hafa verið afar ánægjulegt að fyrsti fundur sinn í hópi norrænu ráðherranna hafi verið með fulltrúum Afríkuríkja. Gunnar Bragi sótti árlegan samráðsfund utanríkisráðherra Norðurlandanna og Afríkuríkjanna sem haldin var í bænum Hämeenlinna í Finnlandi.

Á fundinum var fjallað um norræna velferðarmódelið á tímum efnahagsþrenginga, leiðir til að tryggja hagvöxt með jöfnuð að leiðarljósi og hvernig stuðla megi að friðarhorfum þar sem ófriður ríkir í Afríku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Gunnar Bragi lagði meðal annars áherslu á í máli sínu hversu brýnt væri að skapa hagvöxt a nýjan leik og forðast mannauðsflótta í efnahagsþrengingum. Hann sagði íslensk stjórnvöld nú bregðast við slíkum áskorunum í upphafi nýs kjörtímabils. Jafnframt sagði hann jákvæða efnahagsþróun og bætt lífskjör í Afríkuríkjum vera mikið fagnaðarefni og að Ísland láti ekki sitt eftir liggja í baráttunni við fátækt og ójöfnuð á alþjóðavísu.