Heildarvelta í kauphöllinni nam rétt rúmum 9 milljörðum í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,49% í 3,4 milljarða viðskiptum, en aðalvísitala skuldabréfa lækkaði um 0,03% í 5,7 milljarða króna viðskiptum. Úrvalsvísitalan stendur nú í 1.727,81 og aðalvísitala skuldabréfa stendur í 1.183,00.

Meðal úrvalsvísitölufélaganna hækkaði Síminn hf. mest, eða um sem nemur 1,94% upp í 3,15 krónur á hlut. N1 hf. hækkaði um 1,37% og fæst hver hlutur nú á 74 krónur. Eimskipafélag Íslands hækkaði um 1,11% upp í 273 krónur á hlut Velta með Síma bréfin nam 491,8 milljón krónum.

Önnur bréf á aðalmarkaði áttu einnig góðan dag. Nýherji hækkaði um 2,42% í 35 milljón króna viðskiptum, VÍS hækkaði um 1,71% í 105,4 milljón króna viðskiptum og Sjóvá hækkaði um 1,59% í 11,50 krónur á hlut.

Kauphöllin hefur á síðustu dögum náð að hrista örlítið af tapi ársins af sér. Í gær hækkaði úrvalsvísitalan um 1,32% í 2,9 milljarða veltu og í dag um 0,49% í 3,4 milljarða veltu. Vísitalan hefur þó lækkað um sem nemur 8,11% það sem af er ári.

Markaðsvísitala Gamma hækkaði um 0,2% í dag í 8,8 milljarða króna viðskiptum. Hlutabréfavísitala sjóðstýringarfélagsins hækkaði um 0,6% í 3,4 milljaðra viðskiptum og lækkaði skuldabréfavísitalan um 0,03% í 5,3 milljarða viðskiptum.