Bankasýslan skoðar um þessar mundir ýmsar mismunandi aðferðir til að endurheimta fjármuni sem lagðir hafa verið í sparisjóði landsins og eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins. Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti hins opinbera í sparisjóðum sem þurfti að koma til hjálpar eftir bankahrunið haustið 2008.

Össur Skarphéðinss, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra að því hvernig ríkisstjórnin hyggist vinna að því að endurheimta þá fjármuni sem lagðir hafa verið í stofnfé sparisjóðanna. Fram kom í svari Bjarna í gær að Bankasýslan sé þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að sameina sparisjóði til þess að þeir megi vaxa og dafna.

Arðsemi aukin með sameiningu

Í svarinu segir m.a. að vinna að sameiningu sparisjóða sé liður í þeim áformum Bankasýslunnar að auka arðsemi sparisjóðanna, styrkja samkeppni á markaði og um leið áfangi í því að losa um eignarhlut ríkisins í sparisjóðum.

„Fyrsti áfangi þeirrar vinnu leit dagsins ljós á miðju ári 2013 en á stofnfjáreigendafundum 4. júlí sl. samþykktu stofnfjárhafar Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis samruna sjóðanna. Frekari sameininga má vænta á næstu missirum að mati Bankasýslu ríkisins.“