Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrverandi ráðherra og varaformaður flokksins, ætlar ekki að bjóða sig fram til þings í komandi kosningum. Þar með hættir hún afskiptum af stjórnmálum.

Þetta kemur fram á bloggi hennar í dag.

Valgerður segir þar að ung og glæsileg kynslóð hafi tekið við forystu í Framsóknarflokknum. „Ég efast ekki um að með þetta öfluga fólk við stjórnvölinn á Framsóknarflokkurinn alla möguleika á að eflast og skila góðu verki í þágu þjóðarinnar," skrifar hún á blogginu.

„Við þessar aðstæður er eðlilegt að við sem lengi höfum verið ráðherrar og frambjóðendur fyrir Framsóknarflokkinn stígum til hliðar og gerum mögulega nauðsynlega endurnýjun og kynslóðaskipti í stjórnmálunum."

Blogg Valgerðar má finna hér.