Valitor hagnaðist um 271 milljón króna árið 2016 samanborið við 40 milljón króna hagnað árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins nam 239,6 milljónum króna í fyrra en hann nam 986 milljónum árið áður.

Rekstrartekjur félagsins námu 14,2 milljörðum í fyrra og jukust frá árinu á undan þegar þær námu 10,7 milljörðum. Rekstrargjöld félagsins námu hins vegar 14,25 milljörðum árið 2016 samanborið við 10,7 milljarða árið áður.

Eignir Valitor námu 31,4 milljarða í lok árs 2016, en í lok árs 2015 námu þær 34,4 milljörðum. Skuldir félagsins námu í árslok 2016 23,6 milljörðum og lækka þær milli ára, en skuldir Valitor í lok árs 2015 námu 26,9 milljörðum. Eigið fé Valitor í árslok 2016 nam 7,78 milljörðum.

Sækja á erlenda markaði

Í kafla um framtíðarhorfur fyrirtækisins segir að grunnrekstur félagsins hér á landi sé traustur og fjárhagur sterkur. Einnig er tekið fram að það geri félaginu kleift að leggja áherslu á frekari vöxt í starfsemi sinni og sækja á erlenda markaði. „Með þeirri áherslu er skammtímahagnaði fórnað fyrir langtíma virðissköpun. Rekstrarárangur félagsins til framtíðar mótast m.a. af þeim starfsskilyrðum sem sett eru af opinberum aðilum og kortasamtökum sem félagið á í viðskiptum við. Ef veigamiklar breytingar eru gerðar á núverandi starfsskilyrðum þá getur það haft áhrif á fjárhagslega afkomu félagsins,“ segir í ársreikningnum.

Viðar Þorkelsson er forstjóri Valitor. Valitor Holding hf. á 99 prósenta hlut í Valitor hf. og VISA Ísland ehf. á 1 prósenta eignarhlut.