Embætti sérstaks saksóknara er með til rannsóknar mál einstaklings sem grunaður er um að hafa vantalið tekjur sínar vegna afleiðusamninga um tæpan einn milljarð króna og skotið um 100 milljónum undan skatti. Ekki liggur fyrir hver á í hlut. Málið er eitt ellefu sambærilegra mála sem skattrannsóknarstjóri hefur vísað áfram vegna gruns um undanskot tekna í viðskiptum sem þessum. Flest málanna eru vegna tekjuáranna 2006 til 2008.

Tveir hafa verið ákærðir vegna gruns um brot á skattalögum af þessu tagi. Embætti sérstaks saksóknara ákærði Ragnar Þórisson, sjóðsstjóra og stofnanda vogunarsjóðsins Boreas Capital, í fyrrahaust vegna gruns um að hann hafi vantalið 120 milljóna króna fjármagnstekjur árið 2007 og svikið tólf milljónir króna undan skatti. Þá greindi vb.is frá því í morgun að Eiríkur Sigurðsson, stofnandi verslunarinnar 10-11 sem síðustu árin hefur verið kenndur við Víði, hafi verið ákærður vegna gruns um að hafa vantalið tekjur sínar um 800 milljónir króna og svikið með því móti rúmlega 80 milljónir króna undan skatti. Sérstakur saksóknari ákærir jafnframt Hjalta Magnússon, endurskoðanda Eiríks, í málinu og krefst þess að hann missi löggildingu sína sem endurskoðandi. Mál Eiríks og Hjalta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Gaf upp of litlar tekjur

Mál Eiríks snýr að því hvort einstaklingar megi draga frá tap af afleiðusamningum af hagnaði innan sama tekjuárs. Eiríkur taldi fram 212 milljóna króna tekjur af samningunum árið 2007. Skattrannsóknarstjóri telur tekjurnar hins vegar hafa átt að vera nær milljarði og telur rúmar 800 milljónir króna vanta upp á í skattframtalið. Fyrirtæki hafa heimild til að telja fram með þeim hætti sem Eiríkur gerði en ekki einstaklingar og er um það deilt hvort slíkt sé leyfilegt.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í samtali við vb.is í dag talið að undanskot tekna vegna afleiðusamninga nemi hundruð milljóna króna í einstökum málum. Embættið hefur rannsakað 20 mál af þessum toga. Nokkur málanna sem hafa verið til rannsóknar sæta kærumeðferð fyrir yfirskattanefnd. Í þeim tilvikum hafi úrskurður ríkisskattstjóra um hækkun opinberra gjalda á grundvelli rannsóknarinnar verið kærður til yfirskattanefndar.