Birgir Þór Runólfsson
Birgir Þór Runólfsson

Sá árangur sem náðst hefur í fiskveiðistjórnun hér á landi er að mestu leyti til kominn vegna þess að fiskveiðiheimildir, eða kvóti, fela í sér varanlegan nýtingarrétt. Þessi varanleiki hefur fellt saman hagsmuni útgerða af því að hámarka arðsemi sína og þau umhverfissjónarmið sem snúa að viðhaldi fiskistofna. Þetta kom fram í máli Birgis Þórs Runólfssonar, dósents í hagfræði við HÍ, á fundi sem haldinn var á dögunum í húsakynnum GAMMA í tilefni af útgáfu bókarinnar Heimur batanandi fer eftir Matt Ridley.

„Segja má að mitt erindi hafi verið framhald af erindi Ridleys,“ segir Birgir Þór. „Ridley færir rök fyrir því að eignarrétturinn stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda, einkum út frá umhverfissjónarmiðum og vísar þar til fiskveiða við Ísland.“

Hann segir að kerfi sem byggir á ótímabundnum nýtingarréttindum hafi fellt saman hagsmuni útgerðanna um arðsemi og því markmiði að vernda fiskistofnana. „Þetta hefur einnig haft í för með sér mikla uppstokkun og hagkvæmniaukningu, bæði hagrænt og út frá umhverfissjónarmiðum. Þetta hefur líka falið í sér fækkun fiskiskipa, enda voru of mörg skip að elta fiskinn áður fyrr. Þetta undirstrikar punkt Ridleys um að eignarrétturinn sé best til þess fallinn að stuðla að umhverfisvernd.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .