„Ég hef verið að fylgjast með kosningabaráttunni og ef ég set mig í spor erlends fjárfestis hefði ég miklar áhyggjur af umræðunni um gjaldeyrishöftin og sérstaklega tillögu sem kynnt hefur verið um í raun upptöku ríkisins á eignum þrotabúa gömlu bankanna,“ segir Christensen, forstöðumaður hjá Danske Bank, í samtali við Fréttablaðið. Hann varar við því ef stjórnvöld beita löggjafarvaldinu til að komast yfir eignir þrotabúa bankanna þá myndi slík aðgerði festa gjaldeyrishöftin í sessi til lengri tíma og tiltrú erlendra fjárfesta á landinu tapast. Hann bendir á að sumir flokkanna leggi til í kosningabaráttu sinni að ríkið taki upp eignir þrotabúanna. „Mér finnst líklegt að viðbrögð alþjóðlegra fjárfesta við því yrðu mjög neikvæð og sömuleiðis viðbrögð alþjóðlegra stofnana.“

Christensen hefur margoft tjáð sig um ganginn í íslensku efnahagslífi á síðastliðnum árum en þekkt er skýrsla sem hann vann ásamt öðrum hjá Danske Bank um stöðu og kom út vorið 2006.

Christensen segir m.a. í samtali við Fréttablaðið ekki telja það hlutverk sitt að gefa íslenskum stjórnmálamönnum ráð eða að skipta sér af stjórnmálaumræðunni hér á landi. En sé hann spurður að því hvers konar áhrif þessar hugmyndir séu líkegar til að hafa á fjárfestingu hér á landi þá hafi hann skoðun á því sem hagfræðingur. Hann ítrekaðir að áhrifin yrðu líklega verulega neikvæð.

„Það er vitaskuld vandi á Íslandi að skuldir heimilanna eru mjög háar og stjórnmálamenn þurfa að bregðast við því. Þeir hafa að vísu gert ýmislegt en það þarf meira til. Ég sýni því fullan skilning. En að reyna að leysa þann vanda með upptöku á eignum erlendra fjárfesta er slæm leið,“ segir hann.