Viðskipti með hlutabréf námu tæpum 27,4 milljörðum króna í Kauphöllinni í janúar. Það jafngildir 1.245 milljónum króna á dag og er 734% aukning á milli ára en til samanburðar nam veltan 149 milljónum króna veltu á dag í janúar í fyrra. Í desember síðastliðnum nam dagsveltan með hlutabréf 715 milljónum króna og jókst veltan í nýliðnum mánuði því um 74% á milli mánaða.

Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni var mesta veltan með hlutabréf Icelandair Group í síðasta mánuði eða fyrir 7.609 milljónir króna. Næst mesta veltan var með hlutabréf Eimskips eða upp á 5.138 milljónir. Þá nam veltan með hlutabréf Marel 4.834 milljónum króna.

Úrvalsvísitalan stendur nú í 1.173 stigum og hækkaði hún um 10,7% í janúar.

Íslandsbanki var með mestu hlutdeildina á Aðalmarkaði eða 32,9%. Á eftir fylgdi Landsbankinn með 24,4% og MP Banki með 16,9% hlutdeild.