Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að tilboð SA í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum snúi að því að auka kaupmátt dagvinnulauna.

„Markmiðið er að mæta þeirri kröfu sem sett hefur verið fram um aukna framfærslugetu af dagvinnulaunum. Á borðinu eru hugmyndir um mjög innihaldsríkar kjarabætur. Verulega hækkun dagvinnulauna og frekari aðgerða til að styðja við þá tekjulægstu, t.d. með hækkun tekjutryggingar dagvinnulauna. Við viljum að launakerfið hér verði sambærilegt við þau sem eru á Norðurlöndunum. Þar eru dagvinnulaun hærri, en álagsgreiðslur lækka þá á móti.“

Hann er mjög gagnrýninn á verkalýðsforystuna og segir hana hafa kastað frá sér ábyrgð af efnahagslegum afleiðingum kröfugerða þeirra.

„Þegar samið var síðast var lagt upp með að semja af ábyrgð og stuðla að lægri verðbólgu og lækkandi vöxtum. Lykilþáttur í hagstjórn er ákvörðun launa og þegar laun eru um 60% af verðmætasköpun í hagkerfinu er augljóst að tugprósenta hækkun launa hefur áhrif á verðlag. Nafnlaunahækkanir skapa ekki verðmæti. Þá er það fullkomlega ábyrgðarlaust af hálfu verkalýðsforystunnar að gagnrýna stjórnvöld fyrir óábyrgar efnahagsaðgerðir en leggja svo til launahækkanir sem augljóst er að munu leiða til verðbólgu, vaxtahækkana, gengisfalls krónunnar og atvinnuleysis.“

Þorsteinn segir að mikill árangur hafi náðst í að byggja upp kaupmátt. „Þegar horft er til kaupmáttarleiðréttra launa erum við í öðru sæti á eftir Norðmönnum af Norðurlöndunum öllum. Það væri afar sorglegt ef við köstum þessum árangri frá okkur og reynum enn einu sinni að fara verðbólguleiðina. Hún hefur aldrei skilað neinu nema tjóni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .