Verðgildi íslenskra peningaseðla hefur rýrnað um tæp 98% frá myntbreytingunni hér á landi í byrjun árs 1981 þegar tvö núll voru tekin aftan af krónunni. Þetta er á meðal þess sem fram kom í ávarpi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í tilefni af því að 10 þúsund króna peningaseðill var settur í umferð í dag. Hann sagði ekki dregin dul á að þörfin á útgáfu nýs seðils sé þegar á öllu er á botninn hvolt slæmar fréttir þar sem hún á rætur að  rekja til of mikillar verðbólgu hér á landi á undanförnum áratugum.

Eftir myntbreytinguna árið 1981 var verðmesti peningaseðillinn 500 krónur. Það samsvarar um 20 þúsundum krónum í dag.

Már sagði:

„Stærstur hluti þeirrar rýrnunar átti sér hins vegar stað fyrsta áratuginn enda nam verðbólga að meðaltali tæplega 31% á níunda áratug síðustu aldar og fór hæst í 102,7% í ágúst 1983. Verðgildi seðla rýrnaði því um 93 % á níunda áratugnum. Á tíunda áratugnum nam verðbólgan hins vegar að meðaltali um 3%, en tæplega 6 % það sem af er þessari öld. Í sögulegu samhengi hefur því náðst nokkur árangur í að draga úr verðbólgu hér á landi. Það má þó gera enn betur þar sem verðbólga er um þessar mundir í kringum 4% sem þýðir að verðgildi peninga rýrnar um rúm 32% á heilum áratug. Með 2½% verðbólgu, sem er markmið okkar, er samsvarandi tala tæp 22%. Það er því til nokkurs að vinna.“

Ávarp Más Guðmundssonar í heild sinni