Framundan er fyrsta úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en margir sérfræðingar á markaði óttast að Íslendingar nái ekki að standast þau skilyrði sem sett voru fyrir áframhaldandi greiðslum frá sjóðnum. Sérstaklega hafa menn áhyggjur af því hvernig gengur að stilla upp efnahagsreikningum bankanna.

Í Morgunkorni Glitnis er bent á að eitt af skilyrðum AGS er að endurfjármögnun bankanna eigi að vera að fullu lokið í lok febrúar, en í því felst að búið verði að meta allar skuldir og eignir bankanna og setja saman nýjan efnahagsreikning nýju bankanna. Eftir því sem næst verður komist eru margvíslegir hnökrar á þessari vinnu, meðal annars vegna þess að samstarf við erlendu kröfuhafanna hefur verið erfitt.

Í Morgunkorni er bent á að einnig skuli mati á orsökum og afleiðingum bankahrunsins, sem unnið er af hlutlausri nefnd, vera lokið og skýrsla um helstu niðurstöður matsins vera komin til stjórnvalda og almennings. Verkstjórn og umsjón með þessari fyrstu endurskoðun AGS verður því á ábyrgð nýrrar stjórnar þó geri megi ráð fyrir því að þessi verkefni séu nú þegar langt komin.