Heildarhagnaður HS veitna hf. á árinu 2010 nam 321 milljón króna. Er það viðsnúningur um 576 milljónir frá fyrra ári en tap félagsins árið 2009 var 255 milljónir króna.

Stærstu hluthafar félagsins eru Reykjanesbær (66,75%), Orkuveita Reykjavíkur (16,58%) og Hafnafjarðarbær (15,42%).

Í tilkynningu um uppgjörið segir að viðsnúningurinn skýrist m.a. af bættum rekstri, lækkun á gjaldfærðri lífeyrisskuldbindingu, virðisrýrnun var á árinu 2009 og lægri verðbótum langtímalána en frá fyrra tímabili.

„Gjaldfærð lífeyrisskuldbinding fyrir árið 2010 var 16 m.kr. á móti gjaldfærslu um 83 m.kr. fyrir sama tímabil í fyrra.
Verðbætur langtímalána eru um 182 m.kr. en voru fyrir sama tímabil í fyrra um 543 m.kr. Virðisrýrnun á árinu 2009 var alls um 140 m.kr. en engin virðisrýrnun er á árinu 2010,“ segir í tilkynningu.

Tekjur félagsins hækkuðu um 6% á milli ára og þá hækkaði kostnaðarverð um 5% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) var 1.420 milljónir króna samanborið við 1.280 milljónir í fyrra. Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok var 53,0%

Uppgjör HS Veitna .