Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, hvetur snyrtivörufyrirtækið EGF til að hætta að kaupa auglýsingar í Kvennablaðinu. Í færslu á Facebook-síðu sinni bendir Vigdís á Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, er eiginkona Stefáns Karls Stefánssonar leikara og forsvarsmanns Regnbogabarna.

Í pistli á vef Kvennablaðsins hefur Eva Hauksdóttir tekið saman ýmis ummæli Vigdísar í gegnum tíðina undir fyrirsögninni Viskubrunnur Vigdísar . Í umfjöllun Evu segir að Vigdís veki iðulega athygli fyrir stórfurðuleg og oft hlægileg viðhorf og ummæli.  „En Vigdís er ekki skemmtikraftur. Hún er þingmaður, formaður fjárlaganefndar og ein af valdamestu manneskjum landins,“ segir á vef Kvennablaðsins.

Vigdís skrifar á Facebook-síðu sinni:

„Ég hvet EGF til að hætta að kaupa auglýsingar á þessum miðli sem kennir sig við „konur“ - ein pislahöfunda/ábyrðarkona - er eiginkona Regnbogamannsins sem lenti saman við Elin Hirst er hún tjáði sig í þinginu um málefni sem samtökin hafa barist fyrir. Eru þær konur sem eru pistlahöfundar hér stoltar af þessum miðli - um leið og átakinu „konur til forystu“ var hleypt af stokkunum? - svari nú hver fyrir sig !!!“