Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernir, er brattur þrátt fyrir erfiða stöðu í flugi og ferðamennsku. „Þetta er búið að vera svolítið „töff“ rekstur eins og hjá öllum flugfélögum. Þetta er allt á mörkum hins ítrasta mögulega. En þetta getur lítið versnað þannig að nú förum við að horfa fram á veginn og upp á við,“ segir Hörður. „Ef allt fer af stað höfum við möguleikann að bregðast mjög fljótt við.“

Eftir að samkomubannið skall á voru starfsmenn félagsins færðir niður í 50% starfshlutfall á hlutabótaleiðinni og flugframboð var dregið saman um þriðjung. Sætanýting félagsins í samkomubanninu féll úr um 60% í 20-25%, en félagið vilji reyna að forðast uppsagnir eins og hægt er. Ernir nýtir fimm flugvélar í áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja, Húsavíkur, Hafnar í Hornafirði, Bíldudals og Gjögurs en félagið er með þjónustusamning við ríkið vegna þriggja síðastnefndu leiðanna.

Keppinauturinn nýtur ríkisstuðnings

Samdráttur hjá Icelandair og öðrum flugfélögum í millilandaflugi hafi skapað tækifæri í leiguflugi úr landi sem vegið hafi á móti minni tekjum innanlands.

„Þegar ekki er verið að fljúga 30-40 sinnum á dag frá Keflavík myndast smá eftirspurn eftir ferðum.“ Félagið hefur meðal annars flogið leiguflug til Grænlands, Spánar, Færeyja, Danmerkur og Noregs á síðustu vikum. Vegna aukatekna af millilandaflugi uppfylli félagið hins vegar ekki ákvæði stjórnvalda um að ríkið greiði hluta af launum starfsmanna á uppsagnarfresti. Það úrræði á að ná til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir 75% tekjufalli yfir þriggja mánaða tímabil. „Manni finnst það mjög hart,“ segir Hörður.

Á sama tíma er helsti samkeppnisaðilinn, Air Iceland Connect, innan samstæðu Icelandair en Icelandair mun nýta úrræðið. Icelandair sagði upp ríflega 2.000 manns í síðustu viku. Íslenska ríkið mun greiða laun starfsmanna félagsins að stórum hluta á uppsagnarfrestinum. „Samstæðan getur nýtt sér þetta úrræði en við erum ekki í þeirri stöðu. Í því felst svolítil mismunun,“ segir Hörður.

Icelandair hefur einnig fengið vilyrði frá stjórnvöldum fyrir láni frá ríkinu eða ríkisábyrgðum að uppfylltum vissum skilyrðum.

Engu síður vill Hörður helst forðast að fá ríkisstuðning ef hægt er. „Við viljum auðvitað helst bjarga okkur sjálf eins og við höfum alltaf gert,“ leggur hann áherslu á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .