Geir H. Haarde, forsætisráðherra, vildi ekki taka afstöðu til þess hvort það að peningamálastefna Seðlabankans hefði brugðist ætti þátt í því að að fjöldi fólks er að verða gjaldþrota.

Þetta kom fram í orðaskiptum á blaðamannafundi, sem forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, héldu síðdegis í dag, og sýndur var í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV og Stöð 2. Þar spurði Höskuldur Kári Schram, fréttamaður á Stöð 2, hvort til stæði að skipta um menn í Seðlabanka eða ríkisstjórn vegna mikillar reiði í samfélaginu þar sem fjöldi fólks væri að efna til mótmælaaðgerða og krefjast breytinga.

Ingibjörg Sólrún sagði að það yrðu að vera rökstuddar ástæður fyrir því að menn væru látnir víkja enda væru  í störfum skylmingaþrælar sem ætlunin væri "að kasta fyrir ljónin."

Höskuldur Kári ætlaði þá að fylgja eftir spurningunni og sagði: "Það er augljóst að peningamálastefna Seðlabankans hefur mistekist hrapallega með þeim afleiðingum að fjöldi fólks er að verða gjaldþrota..." en forsætisráðherra tók þá orðið og sagði: "Þetta eru fullyrðingar sem þú ert með sem við þurfum ekki endilega að taka afstöðu til hérna, við höfum bæði lýst afstöðu okkar til þessa og þar við situr í augnablikinu."

Að þessu sögðu gaf forsætisráðherra blaðamanni Wall Street Journal orðið en áður hafði verið kynnt að spurning Höskuldar Kára yrði sú síðasta á íslensku.

Forsætisráðherra hélt tvo blaðamannafundi í dag, - þennan kl. 16 með utanríkisráðherra en annan kl. 14.30 með menntamálaráðherra og var sá haldinn í Valhöll og var sendur út í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins. Á þeim fundi sagði Sólveig K. Bergmann, fréttamaður á Stöð 2, í inngangi að spurningu að augljóst væri að orðspor Íslands hefði beðið hnekki erlendis en þá tók forsætisráðherra orðið og mótmælti því og sagðist ekki telja að landið hefði orðið fyrir neinum hnekki sem tengja mætti aðgerðum eða stefnu stjórnvalda eða stjórnmálaflokka.

"En ég tel að fjármálakreppan og það hvernig farið hefur verið með íslenska hagsmuni í Bretlandi hafi leitt vissan hnekki yfir okkur," sagði Geir og sagði að þjóðinni væri refsað sameiginlega og ekki gerður greinarmunur á íslenskum bönkum, öðrum íslenskum fyrirtækjum og íslensku þjóðinni í heild. Mikið átak þurfi til að endurreisa orðspor Íslendinga.

Geir sagði að þeir sem meti málið af sanngirni muni sjá að íslensku bankarnir hafi verið of stórir og stjórnvöld hafi tekið réttar ákvarðanir þegar þeir voru þjóðnýttir og þeim skipt upp.