Hrund Rudolfsdóttir hefur starfað sem forstjóri Veritas frá árinu 2013 en áður hafði hún setið í stjórn fyrirtækisins og starfað hjá Lyf og heilsu í mörg ár. Hún er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og deilir því með lesendum Viðskiptablaðsins að hún hafi miklar áhyggjur af þróun heilbrigðismála á Íslandi

Spurð hvað valdi því að ýmis ný lyf komist ekki á markað hér á landi segir Hrund skort á fjármunum vera helstu ástæðuna. „Þetta er spurning um peninga að miklum hluta, en það er sem er að gerast líka er að lyf eru alltaf að verða meira og meira sérhæfð. Þróun þessara lyfja er mjög kostnaðarsöm og eru því oft rándýr þar sem þau gagnast kannski bara litlum hópi sjúklinga. Þá situr hið opinbera alltaf eftir með þessa ákvörðun, sem er náttúrlega ekki auðveld, hvernig í ósköpunum á að forgangsraða. Hvernig í ósköpunum á að meta líf og lífsgæði til peninga? Á samfélagið að bæta líðan sjúklings stórkostlega þannig að aðili geti verið þátttakandi í samfélaginu í stað þess að liggja inni á spítala ef meðferðin kostar 50 milljónir á ári? En ef meðferðin kostar 150 milljónir á ári? Hvar liggja mörkin? Fyrir einstaklinginn er þetta ekki spurning en fyrir heildina er þetta stór spurning. Við erum jafnframt sífellt að verða betri í að greina sjúkdóma sem við þekktum ekki áður og sem betur fer koma líka oft fram meðferðarúrræði sem ekki eru mjög kostnaðarsöm. Að setjast í þetta dómarasæti er bara svakalega erfitt og maður getur haft samúð með þeim sem sitja þar alla daga. Við gætum gengið mjög langt ef það væru endalausir peningar til en það er ekki raunin. Þetta er því ekki einfalt eða skemmtilegt en ég held að við þurfum að takast á við þessa spurningu og það kallar á ákveðið samtal í samfélaginni. Mér finnst þetta ekki vera spurning sem eigi að sitja bara hjá læknum eða heilbrigðisstarfsfólki eða Sjúkratryggingum íslands. Þetta er samfélagsspurning og við verðum að ræða hvað við ætlum að ganga langt.“

Viðtalið við Hrund má sjá í heild sinni í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pfd-útgáfu af blaðinu undir Tölublöð.