Visa Inc. er eitt allra stærsta fyrirtæki heimsins, þegar kemur að greiðslumiðlun. Félagið hefur nú boðið bönkum að ráðast í lið með sér, til þess að finna hvernig Blockchain tæknin geti nýst Visa og öðrum bönkum. Þetta kemur fram í bloggfærslu á vef Visa Europe.

Blockchain tæknin á uppruna sinn í heimi stafrænna gjaldmiðla. Undirliggjandi greiðslukerfi rafmynta byggir á Blockchain tækninni, þar sem þúsundir óháðra þáttakenda sjá um færsluhirðingu.

Einn af samstarfsaðilum Visa í verkefninu verður BTL Group, sem hefur mikla þekkingu á tækninni. Saman ætla fyrirtækin, ásamt evrópskum bönkum, að sjá hvernig hægt verði að lækka kostnað, spara tíma og draga úr áhættu í fjármálaheiminum.

Bankamenn um allan heim fylgjast grannt með þróun mála, og hafa um 50 bankar myndað ráð sem gengur undir nafninu R3. Ráðið styður við hönnunar- og þróunarvinnu á sviði Blockchain tækninnar.

Eitt af því sem heillar fjármálastofnanir hvað mest, er hversu mikið tæknin gæti auðveldað færslur milli landa. Í dag getur það tekið nokkra daga að millifæra milli landa, Blockchain tæknin gerir það kleift að millifæra á fáeinum mínútum.