Viðskiptaráð hefur gert alvarlegar athugasemdir við frumvarp, sem nú liggur fyrir Alþingi, um breytingar á tekjuskattslögum sem felur í sér að vaxtagreiðslur úr landi verði skattlagðar og að settar verði svokallaðar CFC reglur (Controled Foreign Corporation).

Á vef Viðskiptaráðs kemur fram að Viðskiptaráð metur það sem svo að það muni leiða til þess að aðgengi innlendra fyrirtækja og einstaklinga að fjármagni á alþjóðlegum mörkuðum versni og að það takmarkaða fjármagn sem stendur nú til boða verði dýrara.

„Í einhverjum tilvikum getur frumvarpið jafnvel haft þau áhrif að hækka vaxtakjör á þegar gerðum lánasamningum,“ segir á vef Viðskiptaráðs.

Þar segir jafnframt:

„Viðskiptaráð telur því að frumvarpið muni koma til með að hafa verulega skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, sem er þegar afleit sökum efnahagsástandsins. Íslenskt atvinnulíf þarf nú, sem aldrei fyrr, á virku aðgengi að erlendu lánsfjármagni á viðunandi kjörum að halda og mun það skipta sköpum fyrir endurreisn þess. Því skýtur þetta frumvarp skökku við miðað við áherslur ríkisstjórnarinnar á endurreisn íslensks atvinnulífs.“

Sjá nánar á vef Viðskiptaráðs.