Væntingavísitala Capacent Gallup hækkaði um ríflega fjórðung frá fyrri mánuði í apríl og stendur nú í 54,7 stigum. Þetta er í fyrsta sinn frá bankahruni sem vísitalan mælist yfir 50 stigum.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka en vístalan, sem birt var í morgun, mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir.

„Hin aukna bjartsýni á að stórum hluta rætur sínar að rekja til þess að væntingar neytenda til aðstæðna í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði glæðast verulega frá fyrri mánuði, eða um fjórðung,“ segir í Morgunkorni.

Þá kemur fram að bjartsýnin til næstu 6 mánaða hefur ekki verið meiri síðan í maí 2008.

„Vonandi er meiri innistæða fyrir bjartsýninni nú heldur en þá, en eins og kom á daginn var bjartsýnin þá lítið annað en falskar vonir enda var bankakerfið hrunið hálfu ári síðar,“ segir í Morgunkorni.

Væntingar neytenda um horfur í efnahags-og atvinnumálum hafa nú glæðst um tæplega 16 stig frá sama tíma í fyrra  á þennan mælikvarða. Væntingar neytenda eiga þó enn langt í land að teljast góðar, en þegar bjartsýnin var sem mest mældist vísitalan  155 stig í maí 2007. Væntingar landsmanna fóru svo minnkandi árið 2008 og hefur vísitalan verið undir 100 stigum síðan í mars það ár.

Sjá nánar í Morgunkorni.