Volkswagen hefur tilkynnt að það hafi fengið heimild stjórnvalda til að lagfæra bifreiðar í Evrópu sem innihalda hugbúnaðinn sem hannaður var til að sniðganga útblástursreglur. Volkswagen hefur einnig náð samningum við stjórnvöld í Bandaríkjunum um að uppfæra hugbúnaðinn.

Matthias Mueller, forstjóri Volkswagen sagði á mánudag í ræðu með framkvæmdastjórum fyrirtækisins að kostnaðurinn og flækjustigið í kringum lagfæringarnar séu viðráðanlegar fyrir fyrirtækið.

Að mati Bloomberg virðast vandamál Volkswagen virðast nú vera þríþætt, í fyrsta lagi svindlhugbúnaður í um 11 milljónir bifreiða um allan heim; í öðru lagi, óreglulegar koltvíoxíð prófanir í um 800 þúsund bifreiðum og vafasamur hugbúnaður í bifreiðum með stærri dísel vélum í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi ekki ennþá heimilað lagfæringaráætlun Volkswagen þá er samþykki Evrópu talið vera stórt skref fyrir Volkswagen í lagfæringu um allan heim. Talið er að Volkswagen þurfi að innkalla um 8,5 milljónir bifreiða í Evrópu í lagfæringaráætluninni.

Hlutabréf í Volkswagen hafa hækkað um 4,73% það sem af er degi en þau hafa lækkað um það bil 35% frá því að fyrst komst upp um hneykslismálið.