Fyrrverandi þingmaður Repúblikana, Ron Paul segir að það kæmi honum ekki á óvart ef hlutabréf í Bandaríkjunum myndi falla í verði um 25% og gull myndi hækka um 50% á næstu mánuðum. Þetta sagði Paul í viðtali við CNBC í síðustu viku.

Segir Paul að hagkerfi Bandaríkjanna væri ekki eins sterkt og markaðsaðilar haldi og ástandið gæti orðið slæmt áður en október væri liðinn. Paul sem er fyrrverandi þingmaður Texas-ríkis hefur undanfarið gagnrýnt Donald Trump auk þess sem hann skellir skuldinni á Seðlabanka Bandaríkjanna fyrir að halda stýrivöxtum í sögulegu lágmarki í langan tíma.

„Ég held að markaðurinn sé mjög varasamur og seðlabankinn verður að vera varkár. Þar sem þeir virðast vera ófærir um að vita hvað þeir eiga að gera, þá býst ég ekki við að neitt gott komi út úr því sem þeir munu gera," sagði Paul. „Það er verið að gera svo mörg mistök þarna úti að ég held að leiðrétting sé óumflýjanleg."

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Paul heldur því fram að blikur séu á lofti á fjármálamörkuðum í Bandaríkjunum. Fyrir nákvæmlega ári síðan lagði hann fram svipaða spá. Síðan þá hefur S&P 500 hlutabréfavísitalan hækkað um 21%, Dow Jones vísitalan um 24% og Nasdaq um 34%.

Þrátt fyrir að hafa ekki verið sannspár segir Paul að hækkunin sé á „lánuðum tíma". Segir hann að fólk sé sannfært um að hlutirnir séu í himna lagi og að hlutabréfa verð muni halda áfram að hækka og hækka. „Ég kaupi þetta ekki. Gömlu reglurnar er enn þá til staðar, það er of mikil skuldsetning og of mikið af illa ígrunduðum fjárfestingum. Leiðréttingin mun eiga sér stað," sagði Paul að lokum.