Hagnaður tryggingafélagsins Varðar nam á síðasta ári 513 milljónum króna, samanborið við 330 milljóna króna hagnað árið 2011. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Verði. Heildartekjur félagsins námu tæpum 4,8 milljörðum króna, samanborið við tæpa 4,5 milljarða króna árið 2011 og jukust þannig um 6% á milli ára. Iðgjöld ársins 2012 námu rúmum 4,5 milljörðum króna, samanborið við rúma 2,2 milljarða árið 2011 og jukust um 7% á milli ára. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok árs var 28,4% og arðsemi eiginfjár 21,55.

Þetta er fjórða árið í röð sem Vörður skilar hagnaði en samanlagður hagnaður síðustu fjögurra ára nemur tæpum 1,2 milljörðum króna þannig að sjá má að hagnaður síðasta árs nemur tæpum helmingnum af þeirri upphæð. „Þróun á rekstri Varðar á liðnum árum hefur verið ákaflega ánægjuleg,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, í tilkynningunni en þar kemur fram að heildarfjöldi viðskiptavina er nú um 30 þúsund og markaðshlutdeild félagsins er um 10%. Á síðasta ári urðu þær breytingar á eignarhaldi félagsins að færeyski bankinn BankNordik eignaðist félagið að fullu. Bankinn á og rekur einnig tryggingafélagið Trygd í Færeyjum.