Fyrirhuguð stórkaup landsmanna virðast ólíkleg til að vaxa mikið á næstunni samkvæmt niðurstöðum úr skýrslu Capacent Gallup. Vísitalan um fyrirhuguð stórkaup nú í júní mælist 46,8 stig og hefur ekki verið lægri síðan í mars 2010. Í mars síðastliðnum var vísitala rúmu 1 stigi hærri en hún er nú. Þetta kemur fram í greingarefni Íslandsbanka.

Í júní 2010 var vísitalan rúmum 5 stigum hærri. Þess má geta að þessi vísitala hefur hæst farið upp í 76,4 stig sem var í júní á hinu mikla neysluári 2007.

Stórkaup
Stórkaup

Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

Vísitalan er meðaltal fyrir vísitölur bifreiðakaupa, húsnæðiskaupa og kaupa á utanlandsferðum. Allar þessar þrjár vísitölur lækkuðu frá mælingunni í mars. Lækkunin var minnst á vísitölunni fyrir utanlandsferðir, sem mælir hversu líklegt er að einstaklingur komi til með að ferðast til útlanda á næstu tólf mánuðum. Var hún í 122,7 í mars og er nú í 122,4 stigum. Hæst hefur vísitalan fyrir utanlandsferðir farið í 136,4 stig eftir hrun og var það í september 2010.

Vísitalan fyrir bifreiðakaup, sem metur líkurnar á því að einstaklingar muni kaupa sér bíl á næstu 6 mánuðum, mælist nú 13,1 stig og hefur ekki verið lægri síðan í mars í fyrra. Frá hruni hefur þessi vísitala hæst farið í 23,1 stig og var það í júní 2011.

Vísitalan um húsnæðiskaup mældist 4,8 stig nú í júní. Hún mældist 6,6 stig í júní fyrir ári. Þessi vísitala metur líkur á því að einstaklingar ráðist í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum.