Þó að Baltasar Kormákur sé óðum að hasla sér völl í kvikmyndagerð vestanhafs hefur hann ekki orðið samdauna Hollywood-stílnum. Þetta segir í grein New York Times um Baltasar sem birtist í blaðinu á sunnudag. „Í tvær vikur vissi hann ekki að hann ætti sitt eigið hjólhýsi á tökustaðnum,“ er þar haft eftir leikaranum Mark Wahlberg sem ásamt Denzel Washington fer með aðalhlutverkið í nýjustu kvikmynd Baltasars.

„Þú þarft ekki að byrja að neyta kókaíns og sitja við sundlaugina í von um að einhver hringi í þig,“ er haft eftir Baltasar í viðtalinu. „Þó ég geri aldrei aðra kvikmynd eftir að „2 Guns“ kemur út í Bandaríkjunum þá mun ég ekki líta svo á að mér hafi mistekist. Ég mun líta á þetta sem ævintýr og halda áfram að gera það sem ég geri.“

Kvikmyndin Djúpið verður á næstunni frumsýnd vestanhafs og beinir bandaríska dagblaðið athyglinni að viðleitni Baltasars til að fanga raunveruleika sjávarins. Sem kunnugt er þá var myndin að miklu leyti tekin upp á hafi úti í stað þess að beita þeim tæknibrellum sem mögulegt er. „Íslendingar myndu átta sig á því ef þetta er ekki raunverulegt,“ segir Baltasar.

Hér má sjá brot af umfjöllun New York Times um Baltasar.